Lífið

X-Faktor sýndur í Færeyjum

Jógvan hansen hefur aldrei verið vinsælli í Færeyjum.
Jógvan hansen hefur aldrei verið vinsælli í Færeyjum.

Færeyingurinn Jógvan Hansen hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína í X-Faktor og eins og Fréttablaðið hefur áður sagt frá ríkir sannkallað Jógvans-æði í Færeyjum. Vinsældir hans í heimalandinu hafa nú náð nýjum hæðum því færeyska ríkisjónvarpið hefur keypt sýningarréttinn á þeim sex þáttum sem eftir eru.

 

Pálmi Guðmundsson segir þetta mikla viðurkenningu fyrir Saga film.

„Það er sannkölluð útrás hjá Stöð tvö," segir Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar tvö, og hlær. „En þetta sýnir þann mikla áhuga sem Færeyingar hafa á sínum manni og er ekki síður mikil viðurkenning fyrir Saga film, sem framleiðir þáttinn. Þetta er í fyrsta sinn að mér vitandi sem innlend framleiðsla er seld á annan markað." Þátturinn verður þó ekki sýndur í beinni útsendingu í Færeyjum heldur nokkrum dögum eftir að hann er sýndur hér.

Jógvan hefur gengið vel í keppninni fram að þessu, ávallt fengið góða umsögn dómara og aldrei þurft að verma tvö neðstu sætin sem allir keppendurnir óttast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×