Innlent

Geðhjálp skorar á ríkisstjórnina

Frá skólaslitum Fjölmenntar í vor
Frá skólaslitum Fjölmenntar í vor MYND/Vefur Geðhjálpar

Stjórn Geðhjálpar skorar á ríkisstjórn Íslands, að tafarlaust verði tryggt fjármagn til samstarfsverkefnis Fjölmenntar og Geðhjálpar um kennslu fyrir geðsjúka og heilaskaðaða.

Þessi kennsla hefur verið til staðar síðan 2003 og rúmlega 80 manns njóta góðs af henni í vetur. Áætlað er að kostnaður nemi um 24 milljónum kr. á ári. Ár eftir ár hefur óvissa ríkt um fjármögnun verkefnisins. Tvívegis áður hefur þurft að segja kennurum upp störfum og nemendur verið í fullkominni óvissu um skólann sinn, segir í tilkyningu frá Geðhjálp.

Í desember árið 2004 var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar að tryggja fé til rekstursins og menntamálaráðherra falið að framfylgja þeirri ákvörðun. Við þetta hefur ekki verið staðið. Stjórn Geðhjálpar kallar það árás á mannréttindi geðsjúkra.

Öllum kennurum hefur því enn á ný verið sagt upp störfum og ekkert annað blasir við en að þessi hópur geðsjúkra og heilaskaðaðra verði sviptur eina möguleika sínum til menntunar við þeirra hæfi.

Stjórn Geðhjálpar vill, að teknar verði upp viðræður á milli Fjölmenntar og ríkisstjórnar um framtíðarskipan menntunar fyrir geðsjúka og heilaskaðaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×