Innlent

Flugfélag Íslands tekur væntanlega við flugi til Eyja

MYND/Valgarður

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, hefur falið Vegagerðinni að leita eftir samningum við Flugfélag Íslands um flug á milli Reykjavíkur og Vestmanneyja sem stutt verður af ríkinu. Um er að ræða tímabundin samning meðan útboð til lengri tíma er undirbúið.

Fram kemur á vef samgönguráðuneytisins að vegna eindreginna óska Eyjamanna, sérstaklega um aukið sætaframboð, hafi Flugfélag Íslands verið eini flugrekandinn sem væri tilbúinn með flugvélakost til að mæta þeim óskum.

Eftir að Landsflug ákvað að hætta áætlunarflugi til Vestmannaeyja. Ákvað ríkisstjórnin að tillögu samgönguráðherra að hafinn yrði undirbúningur að útboði á ríkisstyrktu flugi á flugleiðinni. Til bráðabirgða verður samið tímabundið með fjárhagslegum stuðningi.

Á vef Eyjafrétta kemur fram að Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélag Íslands, segi að það taki í mesta lagi sjö til tíu daga frá því samningar nást við Vegagerðina þar til félagið getur hafið áætlunarflug á nýjan leik til Eyja.

"Við höfum ekkert heyrt frá Vegagerðinni en ég sé á vefnum að þeim var falið að ganga til samninga við okkur. Næsta skref er að hitta forsvarsmenn Vegagerðarinnar og sjá hvort við náum ekki saman sem ég geri nú fastlega ráð fyrir," segir hann einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×