Innlent

Náði ekki tilætluðum árangri og hættir því

Anna segist ætla að starfa áfram innan Framsóknar og útilokar framboð með öðrum flokkum eða listum.
Anna segist ætla að starfa áfram innan Framsóknar og útilokar framboð með öðrum flokkum eða listum. MYND/E.Ól.

"Ég náði ekki tilætluðum árangri og þess vegna tók ég ákvörðun um að vera ekki með á listanum," segir Anna Kristinsdóttir, borgarfulltrúi R-listans, um ástæðu þess að hún tekur ekki sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í næstu borgarstjórnarkosningum. Hún bauð sig fram í 1. sæti í prófkjöri flokksins en endaði í 2. sæti.

Aðspurð hvort ákvörðun hennar tengist mikilli smölun Björns Inga Hrafnssonar og hans fólks í prófkjörinu og stuðningi forystu flokksins við hann segir hún að það hafi "ekkert sérstaklega" haft áhrif á ákvörðun sína.

Anna ætlar að ljúka störfum sem borgarfulltrúi þegar kjörtímabilið rennur út og ákveða þá hvað hún geri næst. "Ég mun ekki fara fram með neinum öðrum flokki," segir Anna. "Ég er framsóknarmaður, hef verið það alla mína tíð og ætla að vera það áfram."

Þrátt fyrir ákvörðun sína nú segist Anna ekki hætt afskiptum af stjórnmálum. "Sannarlega mun ég taka þátt í þjóðmálum og starfa með Framsóknarflokknum áfram," segir Anna en kveðst ekki búin að ákveða með hvaða hætti það kynni að verða. Aðspurð um hvort hún kynni að fara í þingframboð að ári segist hún ekkert hafa velt því fyrir sér. Fyrsta sem hún hafi heyrt af slíkum vangaveltum hafi verið í formi spurninga stuðningsmanna sinna og fréttamanna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×