Innlent

Skóflustunga tekin að nýrri sundmiðstöð í Hafnarfirði

Skóflustunga að nýrri sundmiðstöð í Hafnarfirði var tekin í dag. Formaður byggingaráðs bæjarins segir framkvæmdina mikla lyftistöng fyrir Hafnarfjarðarbæ.

Það voru fulltrúar bæjarstjórnar, sundfélaganna í bænum, Fjarðar og Sundfélags Hafnarfjarðar, og merkisberar sundíþróttarinnar í Hafnarfirði sem munduðu skóflurnar á Völlum í dag, en svæðið þar sem sundmiðstöðin á að rísa er við hliðina á íþróttamiðstöð Hauka að Ásvöllum. Um er að ræða 50 metra almennings- og keppnissundlaug, 16 metra barna- og kennslulaug, auk heitra potta, rennisbrautar, líkamsræktarsalar og félagsaðstöðu fyrir SH og Fjörð.

Áætlað er að taka fyrsta áfanga sundmiðstöðvarinnar í notkun í desember á næsta ári en síðari hlutann í maí 2008. Og verðið á herlegheitunum: einn milljarður króna. Við skóflustunguna afhenti Rannveig Rist, forstjóri Alcan sem rekur álverið í Straumsvík, sundfélögunum tveimur 500.000 króna styrk í tilefni tímamótanna.

Ellý Erlingsdóttir, formaður skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðar, var að vonum ánægð með daginn. Hún segir að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi staðið lengi en nú sé ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við verklega hlutann. Og Ellý segir að hin fyrirhugaða sundmiðstöð Hafnfirðinga muni án efa auka hróður sundmanna bæjarins enn frekar, en eins og kunnugt er er hinn frækni sundkappi Örn Arnarson uppalinn í Hafnarfirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×