Innlent

Hagstjórnin gagnrýnd úr öllum áttum

Tvenn samtök atvinnurekenda og launafólks gagnrýndu hagstjórn ríkisstjórnarinnar á fundum sínum í dag.

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands sagði meðal annars í ályktun fundar síns á Ísafirði í dag að það væri dapurleg staðreynd að hagstjórnarmistökin hefðu leitt til þess að atvinnulífið stæði ekki nægilega traustum fótum í lok hagsveiflunnar. Ávinningar sem yfirstandandi kjarasamningar áttu að tryggja launafólki hefðu líka að stórum hluta glatast. Fundurinn sagði það forgagnsverkefni að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Samtök fiskvinnslustöðva gagnrýna hagstjórnina líka í ályktun aðalfundar samtakanna í dag. Þau lýsa yfir furðu á aðgerðum í efnahags- og peningamálum sem beinlínis leiða af sér gengishækkun krónunnar, sem grafi undan rekstri útflutningsfyrirtækja. Þá segir að barátta Seðlabanka við ofþensluna sé ómarkviss og vaxtahækkanir hefði bitnað harkalega á þessum fyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×