Tónlist

Fjölbreytt stemning á nýrri plötu

Hljómsveitin Í svörtum fötum er að gefa út sína fjórðu plötu.
Hljómsveitin Í svörtum fötum er að gefa út sína fjórðu plötu.

Hljómsveitin Í svörtum fötum hefur gefið út sína fjórðu plötu, Orð. Á plötunni eru tólf ný lög sem eru öll samin af meðlimum sveitarinnar, þar á meðal „Þessa nótt“ sem hefur fengið góðar viðtökur að undanförnu.

„Við vildum gera þetta sjálfir núna. Við erum ekki með „pródúsent“ en við höfum áður verið með Hafþór Guðmundsson og Þorvald Bjarna,“ segir Einar Örn Jónsson, hljómborðsleikari Í svörtum fötum. „Við þykjumst vera orðnir svo reyndir að við treystum okkur í þetta sjálfir. Þessi plata er aðeins meira „beisík“ og ekki eins mikið „pródúseruð“ og áður,“ segir hann. „Hún er mjög fjölbreytt. Við höfum mjög ólíkan tónlistarsmekk og leyfum því bara að haldast svolítið á plötunni. Það er hin og þessi stemning í gangi. Við höfum stundum reynt að halda okkur við ákveðna línu en núna var öllum gefinn laus taumurinn.“

Í svörtum fötum gaf ekki út plötu í fyrra vegna þess að söngvarinn Jónsi gaf þá út sína fyrstu sólóplötu. „Við hinir vorum orðnir helvíti hressir eftir pásuna og bandið kom með meira „innpútt“ en venjulega. Jónsi hefur átt flest lögin á hinum plötunum en bandið kom meira inn í þetta núna.“

Síðustu þrjár plötur Í svörtum fötum hafa náð gullsölu og er engin ástæða til að ætla annað í þetta skiptið. Næstu stóru tónleikar sveitarinnar verða á Nasa 2. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×