Innlent

Bræðslan ræst eftir langt stopp

Frá Eskifirði.
Frá Eskifirði.

Bræðslan á Eskifirði var ræst í dag eftir fjögurra mánaða vinnslustöðvun, þegar tvö fiskiskip lönduðu fyrstu kolmunnaförmunum. Ráðamenn Eskju líta björtum augum til komandi vertíðar, ekki síst eftir að fregnir bárust af loðnu í gær.

Það var um þrjúleytið í gær sem Hólmaborgin kom siglandi inn Eskifjörð. Í lestum skipsins voru um 550 tonn af kolmunna sem skipverjar höfðu veitt norður af Færeyjum. Um hálftíma síðar kom annað skip siglandi inn fjörðinn, Jón Kjartansson, einnig af Færeyjamiðum. Þar um borð voru 720 tonn af kolmunna.

Siglingin af miðunum tók rúman sólarhring og þótt aflamagnið væri bara skilgreint sem hálffermi þýði koma skipanna að líf er aftur komið í mikilvægan þátt atvinnulífsins, fiskimjölsverksmiðjuna. Hún var nefnilega ræst að nýju í dag eftir að að hafa verið lokuð frá því um mitt sumar. Ákveðið hefur verið að selja Jón Kjartansson en nýtt skip er væntanlegt í byrjun nýs árs.

Þriðja skip Eskju, togarinn Hólmatindur, er gerður út til bolfiskveiða og er aflinn ýmist frystur um borð eða ísaður til vinnslu í landi. Þrátt fyrir umræðu um erfið rekstrarskilyrði sjávarútvegs eru Eskfirðingar lítt að barma sér.

Fréttir bárust í gær af því að loðna hefði fundist austur af Grímsey og vonast Haukur til að skip Eskju geti fljótlega haldið til loðnuveiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×