Lífið

Björk ánægð með Live8

Live8 tónleikarnir hófust klukkan fimm í nótt. Björk Guðmundsdóttir var meðal fyrstu flytjenda. Tónleikarnir standa enn yfir á nokkrum stöðum. Þetta er stærsti tónlistarviðburður sögunnar og tilgangurinn er að vekja athygli á sárri fátækt í Afríku. Live8 tónleikaröðin hófst í Tókýó eldsnemma í morgun. Tíu þúsund manns sem unnu miða í lotteríi mættu á Makahari Messe leikvanginn til að hlýða á Björk og fleiri listamenn, innlenda og erlenda. Þetta var í fyrsta sinn í tvö ár sem Björk syngur opinberlega og hún olli aðdáendum sínum ekki vonbrigðum. Björk talaði síðan á blaðamannafundi og lýsti ánægju sinni með Live8. Hún sagði fólk reiðubúið að leggja mikið á sig því það hafi mikla trú á þessum málstað Jóhannesarborg var næst af stað klukkan korter í ellefu, síðan Vestur-Evrópa: Róm, París, Berlín og London. Opnunaratriðið þar var ekkert slor - hljómsveitin U2 og gamli Bítillinn Paul McCartney tóku gamla bítlalagið Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band fyrir framan meira en tvö hundruð þúsund áhorfendur í Hyde Park - og hver veit hversu marga í sjónvarpi. Nýbökuðu Íslandsvinirnir í Duran Duran komu fram í Circus Maximus í Róm, ein af fáum erlendum hljómsveitum á dagskránni þar. Í Edinborg komu saman hátt á annað hundrað þúsund mótmælendur sem marseruðu í gegnum borgina og mynduðu hring sem átti að vera tákn um hvíta armbandið, merki Live8 framtaksins. Ekki fór það þó allt friðsamlega fram. Lögreglunni lenti saman við nokkra svarta sauði en almennt gekk þetta nokkuð vel, virðist vera. Skorað var á leiðtoga G8-ríkjanna, sem koma saman til fundar í borginni í næstu viku, að skapa söguna með því að láta fátækt heyra sögunni til. „Make history, make poverty history,“ eins og Bono orðaði það. Það var nokkuð gagnrýnt hversu fáir afrískir tónlistarmenn tækju þátt í tónleikunum en Bob Geldof, upphafsmaður þeirra, sagði aðalatriðið vera að beina sjónum sem allra flestra að vandamálum Afríku og það hefði heppnast. Einu tónleikarnir í Afríku voru í Jóhannesarborg og þar voru allir listamennirnir innfæddir. Skipuleggjendur segja að um fimm og hálfur milljarður manna hafi haft möguleika á því að sjá eða heyra að minnsta kosti einhvern hluta af tónleikunum. Stór hluti þeirra sem ekki höfðu þennan aðgang eru einmitt í álfunni sem átakið allt beinist að: Afríku. En þeir sem gátu og vissu af þessu fylgdust gjarnan með. Sá sem gagnrýnir framtak eins og Live8 hlýtur eiginlega að teljast dálítill gleðispillir. Það heyrast þó gagnrýnisraddir, kannski ekki á tónleikana sem slíka, heldur boðskapinn. Mörgum sérfræðingum finnst sem verið sé að einfalda vanda Afríku um of og benda á að hingað til hafi niðurfelling skulda og óskilyrt fjárhagsaðstoð litlu áorkað og stundum orðið frekar til ills en góðs. Vandi Afríku verði ekki leystur nema innan frá, með því að útrýma spillingu og koma á lýðræðislegum stjórnarháttum sem setja hag íbúanna ofar öðru. En bjartsýni er nauðsyn, eins og Desmond Tutu biskup veit. Hann sagði við fjölmiðla í dag að nú sé tækifæri til að gera miklar breytingar í þágu fátækra og það hafi verið góð byrjun að fella niður 40 milljarða dala skuldir. „Nú er rétt að halda áfram á þeirri braut og breyta viðskiptalögunum,“ sagði Tutu.
MYND/AP
MYND/AP
MYND/AP
MYND/AP





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.