Erlent

Bakslag hlaupið í friðarferlið

Ísraelar munu ekki láta stjórn fleiri bæja á Vesturbakkanum í hendur Palestínumanna að sögn varnarmálaráðherra landsins. Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, lét þá skoðun sína í ljós á fundi öryggisráðs landsins í gær að ekki væri óhætt að fela Palestínumönnum stjórn fleiri bæja til viðbótar við Jeríkó og Tulkarem á Vesturbakkanum þar sem þeir hefðu ekki staðið við gefin loforð um að afvopna uppreisnarmenn. Undir þetta tók Ophir Pines-Paz innanríkisráðherra. Hins vegar er ekki vitað um afstöðu Ariel Sharon forsætisráðherra til málsins. Palestínskur yfirmaður öryggismála á Gaza-svæðinu sagðist ekki hafa nein áform um að afvopna uppreisnarmenn en hvatti þá engu að síður til að halda sig til hlés. Vopnahlé Palestínumanna og Ísraela hefur staðið yfir síðan í febrúar og fyrir nokkrum vikum tóku þeir fyrrnefndu yfir stjórn bæjanna tveggja. Þótt dregið hafi úr ofbeldi hefur nokkur spenna ríkt á milli þjóðanna. Til dæmis urðu Ísraelar æfir eftir að lögreglan á Gaza-ströndinni sleppti meintum Hamas-liða sem hafði fjölda vopna í bíl sínum aðeins nokkrum mínútum eftir að eldflaugum var skotið yfir landamærin til Ísraels.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×