Menning

Var í tíu ár á leiðinni til Hóla

"Ég var búin að vera á leiðinni að Hólum í tíu ár og nú loksins lét ég verða af því. Það er eitt það besta sem fyrir mig hefur komið," segir Guðrún Rut og býr sig undir að taka hestagullið Þokkabót frá Hólum til kostanna. Guðrún Rut er úr Reykjavík og er með börn sín tvö á Hólum, níu ára dóttur og sjö ára dreng. "Ég varð ólétt að dótturinni einmitt um það leyti sem ég ætlaði að drífa mig í bændaskólann. Þess vegna frestaðist það," segir hún hlæjandi. Hún segir mjög gott að vera með börn á Hólum og ber lof á grunnskólann þar. Hennar eigið nám segir hún afar lærdómsríkt líka. En hvenær smitaðist hún af hestabakteríunni? "Hún hefur blundað í mér frá því ég var krakki. Ég fór fyrst á bak þegar ég var þriggja ára. Það var á Hofsstöðum á Mýrum þar sem ég var síðar í sveit hjá langömmu minni og hún gaf mér fyrsta hestinn í fermingargjöf. Þá átti ég heima á Seltjarnarnesi og hélt hesta í Ráðagerði. Svo er ég búin að starfa við hestamennsku undanfarin sex ár, í Laxnesi, hjá Íshestum og við tamningar í Mosfellsbæ." Guðrún Rut er búin að skrá sig í áframhaldandi nám á Hólum næsta vetur og ætlar að vinna þar í sumar við tamningar og fleira. "Ég nældi mér í kærasta hér í nágrenninu sem er hestamaður líka," segir hún brosandi og bendir innar í Hjaltadalinn. Hann býr þarna inni á Hvammi."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×