Menning

Fjölbreytnin gefur starfinu gildi

"Maður telst vera allt í senn, framkvæmdastjóri, starfsmannastjóri og einhvers konar hugmyndafræðilegur forystusauður, þannig að verkefnin eru margþætt," segir Lárus þegar hann er beðinn að lýsa starfinu sínu. Hann hefur verið skólameistari í MH frá árinu 1998 og kveðst hafa kennt þar með hléum frá 1982. "Ég fór í framhaldsnám á tímabilinu og gerðist aðstoðarskólameistari í Borgarholtsskóla 1996 en hélt þó áfram að kenna við Öldungadeildina í MH þannig að ég hef haldið tengslum við skólann ansi lengi," segir hann. Stöku sinnum segist Lárus hafa sinnt forfallakennslu í stærðfræði eftir að hann tók við skólameistaraembættinu og nú síðustu misserin verið með stúdentsefnin í litlu lífsleikninámskeiði. Hann vilji gjarnan vera í snertingu við krakkana og fylgjast með því sem þeir séu að gera en verði þó vissulega að finna meðalhóf í því. Hann er nýkominn úr þriggja daga ferðalagi með kórnum um Vesturland. "Kórinn er samofinn ímynd skólans og ég fer með honum í flestar ferðir enda er ég stoltur af að vera með þeim hópi," segir hann brosandi. En hvað telur hann ánægjulegast við starfið? "Ef ég á að nefna eitthvað eitt er það líklega sú athöfn að útskrifa stúdentana. Það er alltaf hátíðleg stund að sjá ungmennin stíga bjartsýn og glöð út í lífið og maður leikur sér að því að gera sér mynd af þeim í framtíðinni. Svo finnst mér líka gaman að fylgjast með störfum kennaranna. Almennt er það fjölbreytnin sem gefur starfinu mínu gildi og öll þessi mannlegu samskipti." Hann hlær þegar hann er í lokin spurður hvort hann sjái sig fyrir sér gamlan í þessu starfi - og svarar. "Ég hugsa nú ekkert óskaplega langt fram í tímann!"





Fleiri fréttir

Sjá meira


×