Menning

Búningahönnun er baktería

Filippía er á verkstæði Þjóðleikhússins þegar hún er ónáðuð. Hún er að skapa búninga fyrir leikrit Birgis Sigurðssonar, Dínamít, sem er kraftmikið nýtt verk og verður frumsýnt um aðra helgi. "Við ákváðum að velja fremur látlausa leið í búningum að þessu sinni," segir hún. "Aðalatriði við þá eru form og litir en ekkert óþarfa skraut. Næstum án smáatriða. - Dofnuð minning - ákveðinn tómleiki." Það er ýmislegt sem kveikir hugmyndirnar hjá Filippíu. "Ég byrja oftast að vinna út frá tónlist og er oft með sömu tónlistina á, út allt ferlið, bara fyrir mig. Þessi vinna er eins og púsluspil. Maður byrjar einhvers staðar og heldur svo áfram að raða." Hún kveðst vinna náið með leikstjóra og sviðsmyndahönnuði og líka vera í góðu sambandi við leikarana. "Það er ekkert yndislegra en að sjá leikara blása lífi í karakterinn og vera hluti af því kraftaverki," segir hún. Auk vinnunnar fyrir Dínamít er Filippía að undirbúa verkefni á eigin vegum fyrir opnun Listahátíðar. "Þetta er óður til kindarinnar sem verður frumsýndur við opnunina og á svo eftir að þróast í margar aðrar áttir." segir hún býsna dularfull. Að lokum er hún spurð hvort hún geti skilið vinnuna við sig. "Nei, maður er náttúrlega alltaf með hugann við þetta. Ég væri samt ekkert í þessu nema af því að ég elska þessa vinnu. Þetta er ástríða."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×