Menning

Bolluvandaframleiðsla í tæp 70 ár

Margrét Sigurðardóttir, sem komin er á níræðisaldur, framleiðir bolluvendi. Framleiðslan hjá henni hefur staðið í tæp sjötíu ár og aldrei fallið niður. Hún segist reyndar þurfa að skipuleggja sig vel því hún hafi svo mikið að gera. Þegar fréttastofa Stöðvar 2 hitti Margréti í dag var vertíðinni að ljúka hjá henni og síðasta sendingin rétt ófarin. Hún er búin að standa í þessu í áratugi, reyndar tæpa sjö. Margrét segir að hugmyndin hafi vaknað hjá henni og nokkrum vinkonum hennar þar sem foreldrar þeirra hafi alltaf keypt bolluvendi. Hún hafi byrjað 13 ára og hafi búið til vendi á hverju einasta ári síðan. Margrét segist vera mikil bolludagskona og baki bollur á hverjum bolludegi. En það er ljóst að mikil vinna felst í hverjum vendi og Margrét segir mestu vinnuna að klippa efnið niður. Aðspurð hvernig gengið hafi að fá efni í vendina í gegnum árin segir Margrét að hún hafi alltaf keypt það í heildsölu en aldrei lent í skorti eða vandræðum. Margrét segir bolluvendina hafa breyst nokkuð í gegnum tíðina. Fyrst hafi hún búið til þrjár til fjórar rósir sem hún hafi sett á hvern vönd og svo hafi hún klippt niður bréf og skrapað það og haft hrokkið á milli til þess að vöndurinn liti betur út. Það hafi hins vegar reynst mjög seinlegt og því hafi hún farið að framleiða svokallaða slaufuvendi. Margrét segist aldrei fá leiða á þessu því litirnir séu svo fallegir. Hún er afar upptekin kona, er í dansi og gengur fleiri kílómetra á hverjum degi þannig að hún þarf að skipuleggja bolluvandaframleiðsluna vel, en hún byrjar að klippa efni í vendi í ágúst eða september.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×