Erlent

143 fórust í flugslysi í Indónesíu

143 fórust þegar farþegaþota hrapaði í þéttbyggðu íbúðahverfi í þriðju stærstu borg Indónesíu, Medan, í dag. Vélin hrapaði skömmu eftir flugtak, en hún var á leið frá Medan til höfuðborgarinnar Jakarta. Flugvöllurinn er inni í miðri borg, umkringdur þéttri byggð. Hundrað og sautján manns voru um borð í vélinni og var í fyrstu talið að allir hefðu farist, en björgunarmenn fundu síðan 13 farþega á lífi. Þrjátíu og níu manns á jörðu niðri, íbúar í hverfinu þar sem vélin hrapaði, létu lífið. Tugir húsa og bíla brunnu í kjölfarið, en aðstæður til björgunarstafa voru erfiðar. Vélin var frá flugfélaginu Mandala Airlines, sem hefur átt í nokkrum rekstrarerfiðleikum undanfarið. Flestar þeirra fimmtán véla sem félagið á og rekur eru Boeing 737-200 frá áttunda áratugnum. Vélin sem hrapaði var nærri tuttugu og fimm ára og var síðast yfirfarin í júní. Forseti Indónesíu, Susilo Bambang Yudhoyono hefur fyrirskipað opinbera rannsókn á slysinu, en ekki er vitað hvað olli því. Skýjað var, en hreint ekkert óveður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×