Innlent

Við vorum svangir

Vinnumarkaður Fimm Brasilíumenn, sem komu hingað til lands í sumar ásamt fleirum til að setja upp gifsveggi, sögðu í vitnaleiðslum fyrir Héraðsdómi Reykjaness í byrjun vikunnar að þeim hefði verið lofað 120 þúsund krónum á mánuði fyrir fimm daga vinnuviku, 500 krónum á tímann í aukavinnu, og húsnæði. Einn átti líka að fá hádegismat.

Mennirnir sögðu að Magnús Guðmundsson, eigandi Nýgifs, hefði ekki staðið við orð sín. Hann hefði aldrei borgað þeim á réttum tíma og aldrei heil mánaðarlaun í einu. Hann hefði borgað þeim 5-10 þúsund krónur öðru hvoru og einum mannanna þrjátíu þúsund og fimmtíu þúsund.

Einn þeirra kvaðst hafa fengið 810 evrur, rúmlega sextíu þúsund krónur, kvöldið áður en mennirnir áttu að halda heim. Magnús hefði látið þá vinna 167 tíma samtals hvern án þess að greiða fyrir það. Hann "reddaði okkur stundum einhverjum smá pening," sagði einn mannanna fyrir Héraðsdómi.

Mennirnir sögðust hafa gert athugasemdir við Magnús út af laununum og hann hefði sagt þeim að hafa ekki áhyggjur. "Við stoppuðum meðal annars vinnuna í einn dag, því við áttum ekkert að borða," sagði einn mannanna og tveir sögðu að Magnús hefði þá hótað að senda lögregluna á þá og senda þá úr landi allslausa.

Einn sagði: "Við vorum svöng, við vorum átta saman á vinnustað með eitt klósett." Brasilíumennirnir sögðu að þeim hefði verið lofað að búa fjórir saman í íbúð en þeir hefðu búið átta á sama stað. Þeir hefðu unnið fyrir ÍAV, fyrirtæki á Akranesi og líka heima hjá verkfræðingi, vini Magnúsar. Í vitnaleiðslunum kemur fram að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við mennina og þeir ekki fengið launaseðla. Eitt sinn hafi þeir verið látnir skrifa undir óútfyllt blað og sagt að það væri til að þeir fengju dvalar­leyfi. Magnús hefur sagt Brasilíumennina hafa valdið sér tjóni með óvönduðum vinnubrögðum. Mennirnir sögðu fyrir Héraðsdómi að þeir hefðu strax bent honum á að hráefnið væri ekki nógu gott, gifsið myndi ekki festast á veggi og loft nema notað væri límið Bianco til að festa það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×