Erlent

Myndir af líkum á sígarettupökkum

Litmyndir af líkum, sundurrotnuðum tönnum og samankrumpuðum svörtum lungum verða innan tíðar framan á öllum sígarettupökkum sem seldir verða í Evrópusambandslöndum.  Það þótti all harkaleg áróðursherferð þegar þau skilaboð voru sett framan á sígarettupakkana að þeir sem reyki deyi fyrir aldur fram og „Reykingar drepa“. Þetta er þó barnaleikur miðað við nýjustu tillögur  Evrópusambandsins. Myndirnar eru ekki kræsileg sjón og verður vafalaust til þess að einhverjir hugsa sig tvisvar um áður en þeir kveikja í rettunni. Evrópusambandið hefur verið að safna myndum af þessum toga í nokkra mánuði en frá og með október í haust verður heimilt að smella þeim framan á pakkana, ásamt prentuðum skilaboðum. Kannanir og reynsla hefur leitt í ljós að svona harkalegur áróður svínvirkar. Myndir eru þegar notaðar utan á sígarettupakka í Kanada. Tæplega helmingur þarlendra reykingamanna segir að myndirnar hafi ýtt undir löngun sína til að hætta að reykja og heil 17% höfðu sérstaklega beðið um að fá pakka án ljósmyndar þegar þeir keyptu skammtinn sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×