Innlent

Herinn vill kaupa þjónustu

Varnarliðið vill kaupa heilbrigðisþjónustu af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Varnarliðið vill kaupa heilbrigðisþjónustu af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Fulltrúar bandaríska hersins og herspítalans á Keflavíkurflugvelli hafa frá því í sumar margsinnis komið að máli við ráðamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að kynna sér aðstöðu og kanna hvaða heilbrigðisþjónustu mætti kaupa af henni.

Þetta segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Fréttablaðið greindi frá því í gær að viðræður stæðu yfir milli fulltrúa varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli annars vegar og Landspítala - háskólasjúkrahúss hins vegar um að spítalinn taki að sér aukna sjúkraþjónustu fyrir varnarliðsmenn þar sem leggja eigi herspítalann á Vellinum niður sem slíkan.

"Ástæðan fyrir því að þeir eru að leita eftir þjónustu er fyrst og fremst sú að þegar flugherinn tekur við af sjóhernum á næsta ári mun sjúkrahús þeirra loka því að bandaríski flugherinn rekur almennt ekki sjúkrahús í Evrópu," segir Sigríður.

"Heilsugæsla mun áfram verða veitt á Vellinum. Á undanförnum vikum hafa sérfræðingar varnarliðsins komið hingað á HSS og hitt lækna og annað starfsfólk til að kynna sér starfsemina.  Þeir hafa lagt fram beiðni um að HSS veiti meðal annars alla lyflæknisþjónustu, almenna skurðlæknisþjónustu, kvensjúkdómaþjónustu, almenna bráðaþjónustu og veiti ráðgjöf í lyflækningum og barnalækningum.

En þar sem HSS býður ekki upp á fullkomnar vaktir á skurðstofu alla daga ársins vildu þeir ekki að fæðingaþjónustu yrði beint til okkar.  Nú á fimmtudaginn er von á yfirlækni ameríska flughersins í Evrópu ásamt fleiri fulltrúum hersins til að skoða aðstöðu og hitta starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×