Innlent

Með 2.000 starfsmenn í Eystrasalti

Norræn könnun hefur leitt í ljós að Íslendingar reka um 20 fyrirtæki af þeim 400 norrænu fyrirtækjum sem starfrækt eru í Eystrasaltsríkjunum.
Norræn könnun hefur leitt í ljós að Íslendingar reka um 20 fyrirtæki af þeim 400 norrænu fyrirtækjum sem starfrækt eru í Eystrasaltsríkjunum.

Um 400 norræn dótturfyrirtæki eru starfrækt í Eystrasaltslöndunum, þar af eru tólf íslensk fyrirtæki með hátt í 2.000 starfsmenn. Fimm þessara fyrirtækja starfa í byggingar- eða málmiðnaði. Þetta kemur fram í skýrslu um umsvif norrænna fyrirtækja í Eystrasaltsríkjunum sem norrænu stéttarfélögin létu vinna.

Í Eistlandi starfrækja Íslendingar eitt dótturfyrirtæki í byggingariðnaði. Það hefur 110 starfsmenn. Í Lettlandi eru tvö byggingarfyrirtæki með 560 starfsmenn auk málmiðnaðarfyrirtækis með 16 starfsmenn. Í Litháen er íslensk verksmiðja með 100 starfsmenn en búist er við að þeir verði 250 um áramót.

Til viðbótar eru sjö önnur fyrirtæki í eigu Íslendinga, eitt í Litháen og sex í Lettlandi. Þessi fyrirtæki hafa samtals rúmlega þúsund starfsmenn. Flest eru fyrirtækin í matvælaiðnaði en eitt framleiðir fatnað og annað er í efnaiðnaði.

Jyrki Raina, framkvæmdastjóri norræna málmiðnaðar­sambandsins Nordiska Metall, segir að það hafi komið norrænu samböndunum á óvart hversu stór íslensku fyrir­tækin séu í Eystrasaltslöndunum. Nú sé það verkefni félaganna að ákveða hvernig eigi að nálgast þau og bæta kjör þessara starfsmanna. Í langflestum tilfellum eru starfsmenn íslensku fyrirtækjan­na ekki í stéttarfélögum.

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, segir í fréttabréfi félagsins að næsta verkefni verði að afla nánari upplýsinga um starfsemi fyrirtækjanna, hvort þau hafi gert kjarasamninga og virði almennar leikreglur á vinnumarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×