Innlent

Pálmatré fóru upp með rótum

Daginn eftir Deltu
Daginn eftir Deltu

"Það lágu ljósastaurar og pálmatré með rótum hingað og þangað," segir Birna Guðjónsdóttir sem búsett er ásamt eiginmanni og tveimur stúlkum á Santa Brigida nálægt Las Palmas á Kanaríeyjum. Hún var akandi á heimleið frá Playa del Ingles í fyrrinótt þegar hitabeltisstormurinn Delta gekk yfir.

"Svo þegar heim var komið var rafmagnið alltaf að fara af en það gerist nú venjulega ef eitthvert óveður er," segir Birna. Ekkert skólahald var á svæðinu í gær vegna ástandsins þó versta veðrið væri gengið niður.

Ekkert tjón varð á eigum fjölskyldunnar en víða brotnuðu gluggar í nágrenninu auk þess sem fjölmargir bílar skemmdust. Birna hefur þó ekki enn haft fregnir af því að neinn af hennar kunningjum hafi orðið fyrir verulegu tjóni.

Klara Björnsdóttir sem býr og rekur veitingastað á Playa del Ingles á vesturströnd eyjunnar Gran Canarias segir hátt í fimmtíu Íslendinga vera þar á slóðum en til allrar lukku náði stormurinn ekki þangað. "Þetta var bara svona eins og íslenskt suddaveður hér og maður er nú ekki að kvarta yfir því," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×