Innlent

Stjórnkerfisbreytingar í borgarráð

Íþróttamál og menningarmál verða ekki sameinuð í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Þetta var ákveðið á fundi stjórnkerfisnefndar Reykjavíkur í gær. Tillögur um sameininguna hafa verið til umræðu hjá borgarfulltrúum Reykjavíkurlistans. Þær mættu hins vegar mikilli andstöðu. Til dæmis sendur formenn allra stærstu íþróttafélaganna í Reykjavík borgarfulltrúum mótmælabréf. Dagur B. Eggertsson, formaður stjórnkerfisnefndarinnar, vildi ekki tjá sig um tillögurnar fyrr en þær hefðu verið lagðar fyrir borgarráð í dag. Hann segir þó að breytingar hafi verið gerðar á lokastigi málsins til að koma til móts við þá sem gerðu athugasemdir þegar tillögurnar voru í formlegu og óformlegu umsagnarferli. Það hafi verið gert til að ná sáttum. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að leikskólaráð og grunnskólaráð verði sameinuð. Einnig verða embætti borgarlögmanns og borgarritara lögð niður. Í staðinn verður settur á fót ígildi umboðsmanns borgarbúa sem Reykvíkingar geti leitað til telji þeir á sér brotið innan borgarkerfisins. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segist geta samþykkt margt af því sem lagt sé til, annað ekki. Sjálfstæðismenn hafi til dæmis alltaf lagst gegn sameiningu íþróttamála og menningarmála. Því hafi verið unnin sigur í því máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×