Innlent

Kröfur kennara sanngjarnar?

Sveitarfélögin búa sig undir kennaraverkfall í haust. Deilan snýst ekki um það hvort félögin hafi efni á að greiða kennurum hærri laun, heldur hvort kröfur kennara séu sanngjarnar. Auk þess að vilja minnka kennsluskyldu um tvær klukkustundir á viku og fækka nemendum í bekk vilja kennarar að laun þeirra jafnist á við meðallaun hjá félögum í Bandalagi háskólamanna. Þeir segja bilið sífellt breikka. Til dæmis er farið fram á um helmingshækkun á byrjunarlaunum umsjónarkennara. Samningaviðræður hafa staðið frá því í febrúar. Samningsaðilar áttu stuttan fund eftir sumarhlé hjá ríkissátttasemjara í gær sem skilaði litlu. Náist ekki samkomulag hefst enn eitt kennaraverkfallið þann 20. september. Það eru ekki aukin fjárútlát sem standa í sveitarfélögunum heldur það að kröfur kennara þykja ganga mun lengra en samningar sem gerðir hafa verið við aðra starfsmenn borgar og bæja. Hjá sveitarfélögunum starfa 16 þúsund manns - kennarar eru um 4000. Formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir eðlilegt að kjarasamningar kennara byggist á svipuðum grunni og samningar við aðra starfsmenn, en tekur fram að samningamálin séu alfarið í höndum launanefndar sveitarfélaga en ekki á borði einstakra félaga eða stjórnar sambandsins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru sveitarfélög nú þegar farin að velta því fyrir sér hvernig hægt verði að bregðast við þeim vandamálum sem fylgja kennaraverkfalli, til að mynda gæslumálum yngstu barnanna. Yfirlýsingar kennara þykja sýna að þeir séu tilbúnir að ganga langt til að fá kröfum sínum framgengt að þessu sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×