Innlent

Kennarar fá 90 þúsund á mánuði

Samninganefndir sveitarfélaga og grunnskólakennara ætla að taka upp nýjar aðferðir eftir árangurslausar viðræður frá því í vor. Komi til verkfalls tuttugasta september fá kennarar níutíu þúsund krónur á mánuði úr verkfallssjóði en sjóðurinn mun duga í tvo mánuði. Fyrsti fundur samningsaðila eftir sumarhlé var hjá ríkissáttasemjara í gær. Fundurinn var stuttur og voru framhaldsviðræður skipulagðar. Samninganefnd sveitarfélaga stakk upp á því að ný leið yrði farin með óformlegum vinnufundum. Kennarar samþykktu það og segir Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar sveitarfélaga, að sitt fólk ætli að hitta kennara í húsnæði Kennarasambands Íslands á mánudag og miðvikudag. Í framhaldinu verður fundur hjá ríkissáttasemjara næsta fimmtudag. Finnbogi Sigurðsson, formaður félags grunnskólakennara, segir að til standi að ræða um vinnutíma en kennarar vilja meðal annars lækka kennsluskyldu um tvær klukkstundir á viku, úr 28 í 26, og auka undirbúningstíma fyrir hverja kennslustund úr tuttugu mínútum í þrjátíu. Kennarar hafa samþykkt að fara í verkfall tuttugasta september hafi viðræður ekki skilað árangri. Birgir Björn segir að kennaraverkfall muni ekki bara skaða börn, foreldra og sveitarfélögin heldur einnig kennara sjálfa. Vísar hann þar til tekjumissis kennara sem fá verkfallsstyrk úr vinnudeilusjóði Kennarasambandsins sem nemur þrjú þúsund krónum fyrir hvern verkfallsdag. Tekið er tillit til allra almanaksdaga og því er mánaðargreiðsla um níutíu þúsund krónur. Myndin er af Birgi Birni Sigurjónssyni, formanni samninganefndar sveitarfélaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×