Innlent

Landhelgisbrot við Svalbarða

Íslensk skip sem verða við síldveiðar á Svalbarðasvæðinu þegar veiðibann Norðmanna tekur gildi næsta sunnudag fá viðvörun og verða áhafnir í kjölfarið handteknar fyrir landhelgisbrot láti þær ekki af veiðum. Íslensk skip hafa þegar veitt um 75 þúsund tonn af síld við Svalbarða. Norskum yfirvöldum hefur ekki verið greint frá stuðningi íslenskra stjórnvalda við útgerðir til að stunda veiðar umfram norska aflaveiðiheimild, segir Johan Williams, deildarstjóri í norska sjávarútvegsráðuneytinu. Hann vill ekki tjá sig um viðbrögð norskra stjórnvalda kæri íslensk stjórnvöld þau fyrir alþjóðadómstól. Málið sé óskylt. "Við ætlumst til þess að allar þjóðir sem veiða á Svalbarðasvæðinu virði reglur svæðisins og 80 þúsund tonna aflaheimildina. Eins og vanalega stöðvum við skip sem veiða umfram heimild og höfum ákveðnar verkreglur til þess sem við fylgjum séu þær brotnar. Við væntum að íslenskar útgerðir sem og íslensk stjórnvöld fylgi reglunum," segir Johan. Utanríkisráðuneytinu barst skeyti um lokun svæðisins á miðvikudag. Axel Nikulásson, sendiráðunautur á Auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytisins, segir ráðuneytið funda með útgerðarmönnum næstu daga um hvernig þeir vilji sjá stuðninginn í framkvæmd en íslensk stjórnvöld hafa gefið útgerðum leyfi til að veiða 128 þúsund tonn af síld. "Við erum að skoða næstu skref og þau eiga að skýrast á næstu dögum," segir Axel. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir útvegsmenn oft hafa fundað með ráðuneytinu en þar sem ekki sé vitað hvernig Norðmenn bregðist við veru skipanna hafi engar ákvarðanir verið teknar. "Pólitískur stuðningur stjórnvalda er gríðarlega mikilvægur útgerðarmönnum," segir Friðrik og að útgerðarmenn vilji sá fjárhagslegan stuðning vegna mikilvægi fiskveiðisvæðisins fyrir íslenskan efnahag þótt hann ráði ekki úrslitum. Mikilvægast sé að Norðmenn hætti að nota norsk lög á svæðinu og byggi lög á grunni Svalbarðasáttmálans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×