Innlent

Eiga nóg í verkfallssjóði

Kennarar eiga nóg í verkfallssjóði til að greiða verkfallsbætur í rúmlega tvo mánuði og eru tilbúnir til að nota hann allan. Verkfall hefði í för með sér gríðarlega röskun á efnhagslífinu, en 45 þúsund börn eru í grunnskólum landsins. Grunnskólakennarar hafa farið þrisvar sinnum í verkfall síðan 1984 en þá var langt og strangt verkfall aðildarmanna BSRB. Þá fóru grunnskólakennarar í verkfall með framhaldsskólakennurum árið 1995 og svo tveimur árum seinna en það verkfall varði einungis í einn dag. Nú er fjórða verkfallið í uppsiglingu ef ekki semst fyrir 20. september. Viðræður hófust í dag á ný eftir nokkuð hlé. Kennarar vilja 250 þúsund króna byrjunarlaun fyrir umsjónarkennara sem eru þrjátíu ára og eldri, sem er um helmingshækkun. Auk þess vilja þeir minni kennsluskyldu og fækkun nemenda í bekk. Ef af verkfalli verður er búist við að það verði langt. Kennarar eiga tæplega 900 milljónir í verkfallssjóði, sem dugar í rúmlega tveggja mánaða verkfall. Þá búast kennarar við stuðningi frá kennarafélögum á norðurlöndum. Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara segir þá hafa vilyrði fyrir lánsfé. Margra vikna verkfall grunnskólakennara myndi hafa í för með sér mjög mikla röskun á þjóðlífnu og efnahagsstarfseminni, að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þó segir hann flókið að meta tapið nákvæmlega. Tæplega 45 þúsund börn eru í grunnskólum á Íslandi. Foreldrar þeirra verða fyrir vinnutapi takist þeim ekki að útvega gæslu, og vinnuveitendur foreldranna verða einnig fyrir tjóni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×