Innlent

Gæti misst heyrn á öðru eyra

Óttast er að maðurinn sem var höfuðkúpubrotinn í Öxnadal í síðustu viku geti misst heyrn á öðru eyra. Sjö manns voru á vettvangi þegar atburðurinn átti sér stað, þar af tvö börn. Karlmaður á þrítugsaldri situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa höfuðkúpubrotið karlmann á fertugsaldri, aðfararnótt fimmtudags í síðustu viku, þannig að blæddi inn á heila, auk þess sem hann kinnbeins- og nefnbrotnaði. Upphaflega var tilkynnt um slys og var tvennt á vettvangi auk fórnarlambsins þegar lögregla og sjúkaralið komu á vettvang. Fljótlega kom í ljós að atburðarrásin hafði verið með öðrum hætti og sá sem er í gæsluvarðhaldi er grunaður um að hafa veitt hinum áverkana. Þá hefur komið í ljós að alls sjö manns á tveimur bílum voru á staðnum þegar atvikið átti sér stað, þar af tvö börn. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Stöð 2 hefur aflað sér, komu upp deilur í öðrum bílnum og kom fólkið í hinum þá á móti honum. Maðurinn sem ráðist var á, var lagður inn á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, en var fluttur á handlækningadeild í gær. Óttast er að hann missi heyrn á öðru eyra vegna áverkanna. Lögreglan hefur yfirheyrt fjölda fólks og er að komast skýrari mynd á atburðarrásina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×