Innlent

900 milljónir í verkfallssjóði

Kennarar eru tilbúnir að eyða 900 milljóna króna verkfallssjóði sínum, segir formaður Félags grunnskólakennara. Fyrsti fundur deilenda eftir sumarhlé hefst klukkan eitt í dag og má búast við stífum fundarhöldum á næstunni. Síðasti fundur kennara og samninganefndar sveitarfélaga var 14. júní, þegar ákveðið var að gera hlé á viðræðum, að ósk kennara. Kennarar hafa farið fram á að byrjunarlaun umsjónarkennara sem hefur náð þrítugsaldri hækki í 250.000 krónur, fyrir samningslok í ágúst 2007, sem er um helmingshækkun. Það er langt umfram eðlilega hækkanir í samningum segja sveitarfélögin. Kennarar vilja einnig minnka kennsluskyldu og auka undirbúningstíma fyrir hverja kennslustund úr 20 mínútum í 30 mínútur. Sveitarfélögin telja þær kröfur einnig leiða til kostnaðarauka og vilja að kennarar slái af þeim ef ræða á miklar prósentuhækkanir launa. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar sveitarfélaga, segir að í dag verði skipulagsfundur, þar sem fundaráætlun verði lögð fram af sáttasemjara. Þar sem rétt mánuður er í verkfall kennara, komi til þess, má gera ráð fyrir stífu fundarplani á næstunni. Finnbogi Sigurðsson, formaður félags grunnskólakennara, segist hafa orðið var við þann misskilning að boðað hafi verið til verkfalls 20. september. Hann segir að kennarar hafi einungis samþykkt í atkvæðagreiðslu að boða til verkfalls náist samningar ekki, en boða þurfi formlega til verkfalls hálfum mánuði áður en það hefst, sem er í byrjun september. Finnbogi segir það þó ekki markmið kennara að fara í verkfall heldur vilji þeir ná samningum. Samt sem áður séu þeir tilbúnir til að eyða þeim 900 milljónum sem til séu í verkfallssjóði ef til verkfalls kemur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×