Innlent

Ungmennabúðir að Laugum í vetur

Ungmenna- og tómstundabúðir verða opnaðar í vetur að Laugum í Dalasýslu. Að rekstrinum koma Ungmennafélag Íslands og Dalabyggð og munu Dalabyggð og Saubæjarhreppur leggja mannvirkin að Laugum til rekstursins. Búðirnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 14-15 ára, það er níunda bekk grunnskóla, og munu þau dvelja að Laugum frá mánudegi til föstudags í viku hverri. Miðað við fulla nýtingu geta 80 ungmenni dvalið í hverri viku að Laugum en gert er ráð fyrir að búðirnar verði starfræktar í 30 vikur á hverjum vetri. Gæti því farið svo að 2400 ungmenni dvelji að Laugum frá september og fram í maí. Ungmenna- og tómstundabúðirnar verða reknar í anda hugmyndafræði UMFÍ. Þar verður lögð áhersla á tómstundir sem lífsstíl og sem mikilvægan þátt í forvarnarstarfi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Björn B. Jónsson formaður UMFÍ og Haraldur L. Haraldsson sveitastjóri Dalabyggðar munu undirrita samning um framlög til reksturs Ungmenna- og tómstundabúða að Laugum. Einnig mun Ólafur Proppé rektor Kennaraháskóla Íslands undirrita samning um faglegt samstarf vegna Ungmenna- og tómstundabúðanna. Markmið Ungmenna - og tómstundabúðanna verða meðal annars að: · efla sjálfstraust, samvinnu og tillitsemi · hvetja ungmenni til sjálfstæðra vinnubragða · kynna heimavistarlíf · fræða um söguslóðir · kynna landið og nánasta umhverfi · hvetja ungmennitil að taka þátt í félagsstörfum · fræðaungmenni um mikilvægi forvarna · vinna markvisst gegn einelti · kynna ábyrg fjármál · fræða um mikilvægi hollra lifnaðarhátta · kynna jaðaríþróttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×