Innlent

Rannsókn þokast hægt

Lögregla leitar ekki skipulega að konunni, sem hefur verið saknað frá því snemma á sunnudagsmorgun, enda vita menn ekki hvar þeir eiga að bera niður. Rannsókn lögreglu þokast hægt en þó nokkuð margir hafa verið yfirheyrðir og rannsókn á heimili mannsins, sem nú situr í gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni, var fram haldið í dag - þriðja daginn í röð. Vísbendingar á vettvangi benda til voðaverks. Blóð hefur fundist í og við heimili mannsins, sem og í jeppabifreið í hans eigu. Rannsóknin er því ekki lengur eingöngu bundin við Stórholt því grunur leikur á að konan hafi verið flutt annað í bifreiðinni. Hvert bifreiðinni var ekið er ekki vitað Maðurinn, sem er fyrrverandi sambýlismaður konunnar og barnsfaðir, neitaði því að eiga þátt í hvarfi hennar við yfirheyrslur í gær. Þau sönnunargögn sem lögregla lagði þá fyrir dómara nægðu til þess að hann var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna rökstudds gruns um að hann tengdist málinu og hefði vitneskju um afdrif konunnar. Hann var ekki yfirheyrður í dag. Konan fluttist hingað til lands ásamt tveimur börnum sínum frá Indónesíu fyrir nokkrum árum. Hún á ungt barn með manninum sem nú situr í gæsluvarðahaldi. Á síðasta ári var maðurinn sýknaður af ákæru um að hafa ráðist á hana. Eftir að þau slitu samvistum hefur hún m.a. búið í húsnæði á vegum Félags einstæðra foreldra og í Kvennaathvarfinu. Börn konunnar dvelja nú hjá ættingjum en síðast er vitað um ferðir hennar þegar hún átti samskipti við manninn í íbúðinni í Stórholti á sunnudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×