Menning

Sýningarskálinn opnaður 2006

Sýningarskáli vegna fornminja við Aðalstræti 16 í Reykjavík verður opnaður almenningi vorið 2006. Í skálanum verður saga landnáms sögð og margmiðlunartækni notuð til að koma túlkunum fræðimanna á framfæri. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, og fulltrúar fasteignafélagsins Stoða undirrituðu í dag samning um kaup Stoða á kjallara nýja hótelsins á horni Aðalstrætis og Túngötu. Þar verður tæplega ellefu hundruð fermetra sýningarskáli með merkum minjum sem fundust við uppgröft árið 2001, en gert er ráð fyrir að smíði skálans ljúki í mars á næsta ári. Við undirritun samningsins voru til sýnis fyrstu hugmyndir um notkun sýningarsvæðisins. Árið 1994 ákvað Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, að láta byggja upp á þessu svæði og eru miklar vonir bundnar við að sýningarskálinn eigi eftir að laða að marga gesti, sem vilja kynna sér sögu landmámsins hér á landi. Ingibjörg segir Reykjavíkurborg fjármagna sýninguna, en Stoðir kaupi allt húsið af borginni á 160 milljónir. Þeir peningar verði notaðir til þess að fjármagna sýningarhaldið. Gert er ráð fyrir að sýningarskálinn verði tilbúinn vorið 2006, en mikil vinna fer í að forverja rústirnar á svæðinu. Hjörleifur Stefánsson, arkítekt, segir ætlunina að segja söguna um það hvernig landnám hófst í Reykjavík og einnig nota margmiðlunartækni til þess að sýna hvernig fræðimenn túlki það sem hér hafi fundist.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×