Innlent

Norðmenn æfir yfir skólakönnuninni

Niðurstaða alþjóðlegrar rannsóknar, Pisa, á lestrar-, stærðfræði- og náttúrufræðikunnáttu 15 ára barna hefur vakið geysilega harðar umræður í Noregi, ekki síst þar sem þetta er ekki fyrsta rannsóknin sem sýnir lélega kunnáttu norskra grunnskólabarna. Og þekkingin versnandi fer. Norsk grunnskólabörn koma verr út úr könnuninni en þau íslensku í tveimur fögum af þremur. Meðan Íslendingar eru í 14. sæti í stærðfræði eru norsku börnin í 22. sæti af 41 og í náttúrufræði standa báðar þjóðir illa, Íslendingar þó sýnu betur en Norðmenn. Íslendingar eru í 21. sæti og Norðmenn í 28. sæti. Í lestri standa Norðmenn hinsvegar betur en Íslendingar. Norsk skólabörn eru í 12. sæti en þau íslensku í 20. sæti. Rannsóknin sýnir að Norðmenn standa norðurlandaþjóða langverst í skólamálum og Íslendingar eru frekar aftarlega á merinni nema í stærðfræði. Finnsk grunnskólabörn hafa áberandi mestu þekkinguna. Finnarnir eru í fyrsta sæti í lestri og náttúrufræði og öðru sæti í stærðfræði. Íslendingar koma heldur betur út í stærðfræði en Danir og Svíar fylgja þeim þétt eftir. Í lestri eru allar þjóðirnar með betri þekkingu en við en í náttúrufræði hafa Norðmenn verri þekkingu en við. Samkvæmt skoðanakönnun VG telja 47 prósent norsku þjóðarinnar að norski menntamálaráðherrann Kristin Clemet hafi staðið sig við að auka þekkingu norskra skólabarna meðan aðeins 5,8 prósent telja hana hafa staðið sig vel. Clemet hefur verið ráðherra í þrjú ár og leiðir umbætur í skólamálum sem eru í miðjum klíðum. Þessar umbætur þykja skila litlum árangri. Ýmsar skýringar hafa komið fram á lélegri þekkingu norskra skólabarna. Grunnskólakennarar í Noregi þykja illa launaðir, menntunin stutt og léleg og lítill friður er í skólakennslunni. Stjórnarandstaðan í Noregi krefst þess að ríkisstjórnin axli ábyrgðina á þessari lélegu útkomu en talsmenn ríkisstjórnarinnar telja niðurstöður könnunarinnar ekki á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar. Vandann megi rekja lengra aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×