Innlent

Sögðu já undir þrýstingi

Grunnskólakennarar eru ekki himinhrópandi ánægðir með nýgerðan kjarasamning við sveitarfélögin þó þeir hafi samþykkt hann í allsherjaratkvæðagreiðslu, segir Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara. Trúnaðarmaður kennara segir forystu þeirra þurfa að hugsa sinn gang. Finnbogi segir margir kennara hafa sagt já til þess að forðast gerðardóm: "Menn stóðu frammi fyrir tveimur kostum. Meirihlutinn valdi að segja já en það er hins vegar ljóst að það þarf að vinna ákaflega vel með þennan samning." Athuga verði að framkvæmd hans verði eins og til hafi verið sáð. Valgerður Eiríksdóttir trúnaðarmaður í Fellaskóla segir að af tvennu illu hafi samninginn verið skárri kost en gerðardómur. "Ég held að flestir hafi jafnvel átt von á því að samningurinn félli." Margir hafi verið óánægðir en bætt starfskilyrði og bætt lífeyrisréttindi hafi vegið þungt í því að samningurinn hafi verið samþykktur því launahækkunin hafi verið ónóg. "Ég er hrædd um að stjórn grunnskólafélagsins þurfi að hugsa sinn gang," segir Valgerður. Stjórnin hafi lagt fram samning sem rétt hafi skriðið í gegnum atkvæðagreiðslu þrátt fyrir að vera ekki lagt frá þeim sem þeir lögðu upp með í upphafi samningaviðræðnanna. "Samningurinn var ekki gerður undir venjulegum kringumstæðum. Það voru allir í úlfakreppu. Það voru engar leiðir færar og búið að þrykkja fólki upp að vegg og þannig er hljóðið í fólki." Jón Pétur Zimsen kennari í Réttarholtsskóla segir niðurstöðuna sýna að kennara séu ekki sáttir. Sjálfur hafi hann heldur kosið með samningnum en að fara með deiluna fyrir gerðardóm. Hann segir aðspurður erfitt að ráða í hver staðan verði eftir fjögur ár þegar samningurinn renni út: "Það þarf að gera þjóðarsátt um að hækka launin það verulega að menn geti verið sáttir við sitt og friður ríki um skólastarf."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×