Innlent

Starfsleyfisumsókn vísað frá

Umsókn Mjallar-Friggjar um starfsleyfi við Vesturvör 30c á Kársnesi í Kópavogi var vísað frá á fundi heilbrigðisnefndar bæjarins í gær vegna þess að gögn skorti frá fyrirtækinu. Fyrirtækið var áður með klórvinnslu og klórgasframleiðslu að Fosshálsi í Reykjavík, en flutti starfsemina í kjölfar eigendaskipta í byrjun sumars. Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, segir að starfsemi hefði ekki átt að hefjast í Kópavogi fyrr en búið var að ganga frá bæði forms- og öryggisatriðum henni tengdri, en vitað er að fyrirtækið flutti með sér þrýstihylki með klórgasi og hóf vinnslu. Hann taldi þó ekki það slíkar brotalamir ættu eftir að hafa eftirmála. "Við höfum enga ástæðu til að fara með mál fyrir dómstóla, nema þá að það sé eitthvað sem heldur áfram." Guðmundur áréttar þó að fyrirtækið geti lagt inn starfsleyfisumsókn á ný þegar viðeigandi gagna hafi verið aflað, en ekki lágu fyrir byggingarnefndarteikningar sem þyrftu uppáskrift slökkviliðs. Þá segir hann einnig hægt að sækja um undanþágu frá starfsleyfi til umhverfisráðherra. Flutningur fyrirtækisins hefur vakið nokkrar deilur í bæjarfélaginu og jafnvel talið að ekki sé meirihluti fyrir því innan bæjarstjórnarinnar að veita Mjöll-Frigg starfsleyfi. Fulltrúar Samfylkingar og Framsóknarflokks í bæjarstjórn höfðu lýst andstöðu sinni við málið og að minnsta kosti einn fulltrúi Sjálfstæðisflokks, að því er heimildir blaðsins herma. Þá liggur fyrir umsögn skipulagsnefndar bæjarins frá því í októberbyrjun þar sem segir nefndin leggist alfarið gegn klórgasframleiðslu á svæðinu. Í umsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins vegna starfsleyfisumsóknarinnar kemur fram að áhrifasvæði umhverfisslyss vegna þrýstigashylkjanna utan um klórgasið sé nokkuð stórt, eða tæpir 3 kílómetrar undan vindi, en á móti kemur að mjög litlar líkur eru taldar á óhappi. Hinrik Morthens, eigandi eignarhaldsfélags Filtertækni og Mjallar-Friggjar við Vesturvör, kaus að svara ekki spurningum blaðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×