Innlent

Lengist um eina önn hjá sumum

Vinna við samræmdu prófin í tíunda bekk er mjög langt komin og segir Sigurgrímur Skúlason, sviðsstjóri yfir samræmdum prófum hjá Námsmatsstofnun, að ekki liggi í loftinu að breyta þeim vegna kennaraverkfallsins. Börnin komist hvort eð er inn í framhaldsskóla. "Við erum ekki það vond við börnin. Áhrif af svona verkfalli koma mjög misjafnlega niður á þeim. Með því að búa til létt próf núna værum við að gefa nemendum sem standa höllum fæti skilaboð um að þau standi betur en raun ber vitni. Nemendur sem þyrftu að fara í upprifjunaráfanga í framhaldsskóla færu þá inn í einingaáfangana, sem eru erfiðari, og þá aukast líkurnar á því að þau hrökklist úr námi. Prófin endurspegla hæfni og kunnáttu. Það skiptir máli fyrir nemendur að komast á eðlilegum forsendum inn í framhaldsskóla." Sigurgrímur segir breytingar á samræmdum prófum hafa alvarlegri afleiðingar en það hvernig einkunnir líti út á pappír í lok skólaárs. Einkunnirnar breyti engu um það hvort krakkarnir komist inn í framhaldsskólana heldur því á hvaða forsendum þau komist inn. Fyrirsjáanlegt sé að framhaldsskólanám lengist um eina önn hjá hluta unglinga vegna verkfallsins. "Þau vinna ekki upp aftur það sem þau eru búin að missa úr. Þau þurfa að hafa ákveðinn undirbúning fyrir framhaldsskóla og því þurfa einhverjir nemendur að fara í upprifjunaráfanga sem ella hefðu ekki þurft þess. Ég býst við að það verði stærri hluti af árganginum en oft áður sem á ekki erindi beint inn í einingaáfangana en ég geri mér ekki grein fyrir hversu stór hluti það er. Ef við tökum dæmi af stærðfræði þá fá 25-35 prósent nemenda 4,5 og lægra í tíunda bekk á hverju ári og þessir nemendur eiga í erfiðleikum með fyrstu áfangana í framhaldsskóla," segir hann.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×