Innlent

Gæti farið á báða vegu

Kosning kennara um kjarasamning við sveitarfélögin gæti farið á báða vegu. Trúnaðarmaður kennara í grunnskóla í Mosfellsbæ segir erfitt að ráða í hug kennara en færri séu eins harðir gegn samningnum nú en fyrst. Kosið verður um hann næstu þrjá daga. Niðurstöðu er að vænta 6. desember. Ólafur Loftsson, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, segir andrúmsloftið þyngra í kringum samninginn en í miðlunartillögu ríkissáttasemjara: "Það er mjög skrítin staða að þurfa að taka afstöðu til samningsins með skugga gerðardóms hangandi yfir sér." Guðlaug Gunnsteinsdóttir, trúnaðarmaður kennara í Varmárskóla í Mosfellsbæ, segir fólk alls ekki ánægt með samninginn en nokkur veigamikil atriði hafi náðst sem kennarar hafi barist fyrir lengi. Óánægjan snúi að því sem verði í launaumslaginu. Kennarar hræðist meðal annars að fari deilan fyrir gerðardóm missi ungir kennarar þá umframhækkun sem samist hafi um. Eins að verkstjórnartímanum verði breytt sem og kennsluskyldu reynslumikilla kennara. "Þetta er enn að brjótast um í fólki. Við byrjum að kjósa í dag en ég efast um að það verði margir búnir að kjósa fyrr en á miðvikudag, síðasta daginn," segir Guðlaug: "Staðan er óvenjuleg því fólk hefur talað mjög opinskátt um hvað það ætlar að gera en gerir það ekki núna. Ég held að það sé ekki búið að hugsa sín mál til enda." Ólafur á von á góðri kosningu hjá kennurum nú sem áður: "Hugsanlega verða það einhverjir sem skila auðu og vilja með því senda skilaboð um að þeim líki hvorug leiðin, hvorki samningurinn né gerðardómurinn," segir Ólafur. Þó telji hann að flestir vilji hafa áhrif á niðurstöðuna. Ólafur telur að samningurinn verði frekar samþykktur en ekki: "Þó er það félagsmanna að ákveða það." Undir það tekur Guðlaug og segir: "Þau eru færri nei-in eins áköf og þau voru. Ég bíð eftir 6. desember og get ekki ráðið í hver niðurstaðan verður."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×