Innlent

400 börn í íslenskuskóla á netinu

Fjögur hundruð íslensk börn búsett um allan heim ganga í sama íslenskuskólann, sem er á netinu. Skólinn er hugsaður til að viðhalda kunnáttu í móðurmálinu. Rúmlega 15 þúsund íslendingar eru búsettir á Norðurlöndum, en Hagstofan hefur ekki upplýsingar um hversu margir búa í öðrum löndum. Síðustu ár hafa verið gerðar tilraunir með íslenskukennslu á vefnum íslenskuskóli.is, á vegum menntamálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Kennaraháskólans. Íslenskuskólinn stendur öllum íslenskum börnum opinn um allan heim, til að hjálpa þeim að læra og viðhalda málinu. Skólastarfið skiptist í sjálfsnám og formleg námskeið með fjarkennara. Á vefnum islenskuskolinn.is eru leikir, ritunarsamkeppni, krossgátur, verkefni fyrir myndsköpun og margt fleira. Síðasta vetur voru 400 nemendur í skólanum búsettir um allan heim. Frá byrjun var stefnt að sjálfstæði skólans og var óskað eftir tilboðum um rekstur hans síðasta haust. Alls bárust 10 umsóknir og var ákveðið að semja við Framvegis sem er í eigu Fjölbrautaskólans við Ármúla. Samningur þessa efnis verður undirritaður síðdegis í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×