Innlent

Stefnt á samninga í dag

Sveitarfélögin á höfðuborgarsvæðinu hafa leitað sameiginlegrar lausnar á deilu kennara og sveitarfélaganna. Sigurður Geirdal bæjarstjóri Kópavogs segir að reynt verði til þrautar að semja í dag: "Hvort tekst að semja er ekki hægt að segja til um fyrir fram. Ef ekki semst gerist ekki annað en að það verður einn dagur enn. Menn ætla að vinna alla vikuna og leita allra leiða." Undir það tekur Stefán Jón Hafstein, formaður Fræðsluráðs Reykjavíkur. Hann væntir mikils af fundi samninganefndanna í dag. Hvers sé að vænta vill hann ekki svara: "Það er rík ástæða fyrir því að menn tala varlega. Hún er sú að það vill enginn vera ábyrgur fyrir því að lestin fari út af sporinu síðasta spölinn." Um helmingur grunnskólakennara í Reykjavík mætti til starfa í gær. Brestir voru víða í skólastarfi á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins einn af þrjátíu kennurum Álftanesskóla í Bessastaðahreppi mætti. Víða hafa kennarar sagt upp störfum og hafa hópuppsagnir orðið í grunnskólum Mosfellsbæjar, Hólmavíkur og á Fáskrúðsfirði. Skólastjórar um allt land segja kennara slegna. Grunnskólakennarar ákváðu á fundum í gær að mæta aftur til vinnu. Ingunn Snædal, kennari í Borgarskóla í Reykjavík, segir hafa verið erfitt að sannfæra kennara í mörgum skólunum að mæta aftur til starfa og augljóst sé að skólastarf geti ekki gengið með eðlilegum hætti. Kennarar séu ekki undirbúnir. Þeir geti ekki unnið eftir úreltum kennsluáætlunum. "Það er ekki bara hægt að taka upp þráðinn að nýju. Í nauðungarvinnu leggur maður ekki á sig neina sjálfboðavinnu til að bæta það sem upp á vantar," segir Ingunn. Það liggur í augum uppi að ekki verði hægt að halda samræmd próf í vor: "Ég veit ekki um neinn sveitarstjórnarmann sem er tilbúinn að borga kennurum þá yfirvinnu sem til þarf til að prófin geti farið fram."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×