Innlent

Ríkið greiði kostnað við lagasetningu

"Því miður sýnist mér allt benda til þess að ríkisstjórnin ætli að enda málið með því að setja lög á deilu kennara og sveitarfélaganna. Það þykir mér sorgleg niðurstaða af því að lög leysa ekki vandann til frambúðar," segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. "Ef ríkisstjórnin ætlar að setja lög er rökrétt að álykta að niðurstaðan verði kostnaðarsamari en miðlunartillagan. Samkvæmt því hlýtur ríkisstjórnin, og ber til þess siðferðisleg skylda, að bera kostnaðinn af þeim mun." Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir ríkisstjórnina eiga að bregðast við stöðu mála með því að falla frá áformum um skattalækkanir og hækka skattstofn sveitarfélaganna. "Á grundvelli afdráttarlausrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að tekjustofnar sveitarfélaganna verði styrktir tel ég að sveitarfélögin hafi forsendur til þess að leysa málið við samningaborð kennara og sveitarfélaganna," segir Ögmundur. Það sé lausn til frambúðar. Ögmundur segir að nú reyni á dómgreind ríkisstjórnarinnar og hvort hún sé enn í afneitun á þeirri ábyrgð sem hvíli að hluta til á hennar herðum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×