Innlent

Þekkingarleysi á skólastarfi

"Ef það verður niðurstaðan að ríkisstjórnin fer í lagasetningu þá munu þeir væntanlega keyra hana í gegn um helgina með það að markmiði að opna skólana á mánudaginn," segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Eiríkur segir að hugmyndir launanefndar sveitarfélaganna um að einfalda samninga kennara á þann hátt að þeir mæti án skilgreindra verkefna og vinni undir stjórn skólastjóra stríðsyfirlýsingu. Hugmyndirnar sýni að launanefndin hafi enga þekkingu á skólastarfi: "Ég var að vona að launanefndin lærði af reynslunni. Það er ekki þetta sem þarf til. Ég vona að þessir menn sýni snefil á þekkingu á skólastarfi og hætti svona þvaðri," segir Eiríkur. Hugmyndirnar lýsi fordómum í garð skólastarfs og þeirra sem vinna í skólanum. "Það þarf að koma launamálum kennara í það horf að menn sjái ekki sama neyðarástandið skapast aftur og aftur. Til þess að svo verði þurfa menn kjark til að lyfta launum og gefa mönnum svo færi á því að halda því sem þeir hafa áunnið. Þannig er hægt að skapa frið um skólastarfið, öðruvísi ekki." Eiríkur segir að með síðasta samningi hafi menn trúað að slíkt hafi náðst. Framkvæmd hans hafi orðið önnur en kennarar töldu sig semja um. Eiríkur segir öllum hugmyndum kennara hafnað: "Þeir virðast vera forritaðir til að segja nei."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×