Innlent

Viðræðum slitið

Fundinum í kennaradeilunni sem hófst í morgun klukkan tíu hefur verið slitið og segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, að það hafi orðið að samkomulagi að ekki verði fundað næsta hálfa mánuðinn. Fulltrúar sveitarfélaganna hafi ekki talið tilboð kennara sem þeir lögðu fram í fyrradag vera umræðugrundvöll og kennarar segja tillögu sem sveitarfélögin lögðu fram á sama tíma of óljósa til að hægt sé að ræða hana. Þegar ljóst var í fyrradag að miðlunartillaga ríkissáttasemjara var kolfelld komu bæði sveitarfélögin og grunnskólakennarar með tillögur. Í tillögu sveitarfélaganna kemur að sögn fram vilji til að samræma vinnutíma og laun kennara við aðra háskólamenntaða starfsmenn. Þetta fengust kennarar ekki til að ræða, sögðu þetta eingöngu óljósar hugmyndir. Í tilboði kennaranna sjálfra felast talsvert meiri launahækkanir en í miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Miðlunartillagan fól í sér 130 þúsund króna eingreiðslu, 16,5% launahækkun og 26% kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Í tilboði kennara eru ákvæði um vinnufyrirkomulag sem eru svipuð og í miðlunartillögunni, en eingreiðslan 150 þúsund krónur, launahækkanir 25%, sem - ásamt fleiru - þýðir um 36% kostnaðaraukningu fyrir sveitarfélögin. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, sagðist í hádegisfréttum Bylgjunnar telja að það sem kennarar „spili út“ þarna sé það sem þurfi til að leysa þetta verkfall. „Ég held að sveitarfélögin verði að kyngja þessu ef þau ætla að fá kennara inn í skólana,“ segir Eiríkur. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×