Innlent

Ríkisstjórnin ræddi verkfallið

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi nú fyrir hádegi að kennaraverkfallið hafi verið rætt á fundinum, en ekki lagasetning. Hann sagði að málið væri alvarlegt en eðlilegt væri að gefa samningamönnum einhvern tíma til að reyna að ná sáttum. Verkfall grunnskólakennara hófst aftur á miðnætti og hefur næsti samningafundur í deilu kennara og sveitarfélaga verið boðaður hjá Ríkissáttasemjara á morgun. Eftir að ljóst varð síðdegis í gær að kennarar höfðu kolfellt sáttatillögu Ríkissáttasemjara lögðu báðir aðilar fram hugmyndir til lausnar, en svo ólíkar að viðræður um þær skiluðu engum árangri. Í tillögu sveitarfélaga var gert ráð fyrir 26 prósenta kostnaðarauka vegna nýrra samninga en í tillögu kennara 35 prósenta kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Það er því engin lausn í sjónmáli og með öllu óljóst hversu lengi verkfallið getur staðið. Samkvæmt lögfræðiáliti sem Kennarasambandið leitaði sér standa áfram þær undanþágur sem verkfallsnefnd var búin að veita áður en verkfallinu var frestað.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×