Innlent

Fá tvær vikur til lausnar

Verði miðlunartillaga ríkissáttasemjara felld í dag fá samninganefndirnar eina til tvær vikur til að ná saman áður en lög verða sett á verkfallið, segir Gunnar I. Birgisson formaður menntamálanefndar Alþingis. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir þann tíma ekki of stuttan til samninga sé nægilegu fjármagni veitt í samningana: "Gunnar er sveitarstjórnarmaður og ber ábyrgð sem slíkur," segir Eiríkur sem telur lagasetningu verða til þess að kennurum fækki. Gunnar segist ekki sjá hvernig hægt sé að veita meira fé til að leysa kennaradeiluna: "Efnahagslífið fer á hvolf verði meira fé veitt til lausnar á deilunni." Eiríkur segir hvern sem skilja vilji sjá að fólk sem bundið sé með lögum inn í skólana verði ekki sátt. "Það mun hver og einn kennari bregðast við því eins og hann telur rétt. Auðvitað er ekki hægt að gefa sér hvers konar lög þetta yrðu en mín hugsun er ekki bundin við lög heldur við það hvernig hægt verður að leysa þessa deilu ef svo fer að miðlunartillagan verði felld." Eiríkur segir miðlunartillöguna ekki mæta kröfum kennara: "Það er ekki hægt að gefa þessi spil upp á nýtt. Það verður að koma nýtt fjármagn inn í kjarasamninginn." Hann segir of litla launahækkun ekki það eina sem margir telja ábótavant í tillögunni: "Það er mjög mikil óánægja með að starfsaldurstenging við kennsluferil sé engin. Því verður að breyta. Það eru einnig fleiri þættir inni sem hafa skapað mikla ólgu og reiði og verður að breyta." Birgir Björn Sigurjónsson, formaður launanefndar sveitarfélaga í viðræðunum, segir alla kosti í skoðun verði miðlunartillagan felld. Launanefndin hafi þó ekki nýtt tilboð á borðinu. Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari, segir lög ekki á hans snærum: "Gunnar hefur gefið ýmsar yfirlýsingar um lagasetningar í þessu ferli. Ég hef ekkert um það að segja."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×