Innlent

Vilji til að setja lög á verkfall

Um 61 prósent landsmanna telur að ef kennarar fella miðlunartillögu ríkissáttasemjara og fara í verkfall á ný þá komi til greina að setja lög á verkfallið. Þetta kemur fram í skoðanakönnun Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu telur um 61 prósent það koma til greina að setja lög á verkfallið en 39 prósent telja það ekki koma til greina. Athyglisvert er að nokkur munur er á afstöðu kynjanna sem og afstöðu fólks eftir búsetu. Konur virðast hlynntari því að lög verði sett á kennaraverkfallið ef miðlunartillagan verður felld. Ríflega 65 prósent kvenna segja það koma til greina en 35 prósent eru mótfallin því. Um 56 prósent karla eru hins vegar þeirrar skoðunar að lög á verkfallið komi til greina en 44 prósent þeirra eru mótfallnir því. Tæplega 65 prósentum íbúa á landsbyggðinni finnst koma til greina að setja lög á verkfall kennara samanborið við 58 prósent íbúa í þéttbýli. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að verði sett lög á verkfallið sé verið að fresta vandanum og kannski bara um stuttan tíma. "Menn fara að sjálfsögðu að lögum hvernig sem þau verða, en það mun fækka í kennarastéttinni á eftir," segir Eiríkur. "Ég held að menn láti ekki binda sig með lögum." Eiríkur telur mögulegt að umræða undanfarinna daga hafi spilað inn í niðurstöðuna: "Sjálfsagt hefur það áhrif að mikið hefur verið rætt um lög á verkfall kennara. Ég hef aldrei viljað hugsa þá hugsun til enda ef lög yrðu sett á verkfallið." Eiríkur telur að ástæða þess að konur eru í meirihluta þeirra sem vilja sjá lög á verkfall kennara sé hugsanlega sú að umönnun barnanna sé heldur í höndum kvenna: "Þessi gamaldagshugsun að konur séu ábyrgari fyrir börnunum en karlar er enn svo rík í þessu þjóðfélagi. Ég get vel ímyndað mér að konur hafi upplifað verkfallið á annan hátt en karlar hvað þetta varðar." Úrtakið í könnuninni var 800 manns. Það skiptist jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Ef kennarar fella miðlunartillögu ríkissáttasemjara og fara í verkfall á ný, finnst þér þá koma til að greina að setja lög á verkfallið? Svarhlutfallið var 93,6 prósent.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×