Innlent

Gríðarleg óánægja með tillöguna

Gríðarleg óánægja er meðal grunnskólakennara með miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Talið er fullvíst að hún verði felld sem þýðir að verkfall hefst á nýjan leik í grunnskólum landsins á þriðjudag. Miklar annir hafa verið í húsakynnum ríkissáttasemjara undanfarið en tekið verður á móti atkvæðum fram til klukkan eitt á mánudag. Þá hefst talningin. Það er kannski einkennandi fyrir stemmninguna sem ríkir um þessa atkvæðagreiðslu að starfsfólk ríkissáttasemjara er spurt spjörunum úr um framkvæmd hennar og langflestir virðast ekki treysta póstsamgöngum og kjósa að afhenda atkvæði sitt í eigin persónu. Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri hjá Ríkissáttasemjara, segir óvenjulegt hvað margir komi með atkvæði sitt sjálfir. Hátt á fimmta þúsund grunnskólakennarar eru á kjörskrá. Ef meira en fjórðungur þeirra greiðir atkvæði gegn tillögunni skoðast hún felld. Það var sama við hvern úr röðum kennara fréttastofa ræddi við í gær - fólk var á einu máli um að hún yrði felld. Það eina sem þá er ljóst í stöðunni er að verkfall hefst aftur strax á þriðjudag. Svo virðist sem kennurum þyki sú launahækkun sem í tillögunni felst ekki vera nægjanleg og að hún leiðrétti ekki ýmis ákvæði síðustu samninga sem einnig er megn óánægja með. Anna María Jónsdóttir, kennari við Vogaskóla, segir miðlunartillöguna hafa valdið gríðarlega miklum vonbrigðum innan stéttarinnar og á von á því að kennsla falli niður að nýju á þriðjudag. Rebekka Ólafsdóttir, kennari við Korpuskóla, segist hafa hafnað tillögunni því hún sé ekki sátt við innihald hennar. Hún á einnig von á því að tillagan verði felld og verkfall hefjist því að nýju.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×