Innlent

Ekki aðeins kennarar óánægðir

Það eru ekki bara kennarar sem eru óánægðir með miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Þorri sveitarstjórnarmanna er óánægður með tillöguna og segir hana of dýra fyrir sveitarfélögin. Það er sama við hvern er rætt innan kennarastéttarinnar, nær allir eru á því að miðlunartillaga ríkissáttasemjara verði felld. Það gildir jafnt um hina breiðu fylkingu kennara og um trúnaðarmenn og forystusveit kennara. Fari svo að tillagan verði felld telja heimildarmenn fréttastofu að staðan sé í raun verri en fyrir viku. Fyrir utan það að kennarar telja launin ekki hækka nægilega á samningstímabilinu, eða um 16,5 prósent fram til maíloka 2008 sem þeir segja að hangi ekki einu sinni í verðbólgunni, þá vegur þungt í óánægju þeirra að lífaldurstenging er algjör í tillögunni og starfsaldurstenging engin. Þetta eru ungir sem aldnir sammála um að sé óásættanlegt. Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs í Reykjavík, sagði í samtali við fréttastofu að sveitarstjórnarmenn séu ekki síður óánægðir með miðlunartillögurnar en kennarar. Þeim sé brugðið yfir því hversu dýr hún sé og hafi rætt sín á milli um hvort hægt sé að stokka upp viðræðurnar í samræmi við fyrri útspil samningaviðræðnanna, þ.e.a.s. fari svo að tillagan verði felld. Í grófum dráttum segir Stefán Jón að hugmyndin gangi út á að breyta kostnaðarhækkunum í meiri launalegan ávinning fyrir kennara svo allir geti gengið sáttir frá borði. Umfram allt telja þeir mikilvægt að viðræðurnar hrökkvi ekki í það far sem þær voru í fyrir tíu dögum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×