Menning

Námskeið um Bach og tónlist hans

Johann Sebastian Bach (1685-1750) samdi einhver stórfenglegustu tónverk sem um getur í vestrænni tónlistarsögu. Nú stendur fyrir dyrum námskeið sem Endurmenntunarstofnun Háskólans stendur fyrir í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem leitast er við að skýra þau trúarlegu, fagurfræðilegu og heimspekilegu viðhorf sem liggja að baki tónlist hans. Nokkur frægustu verka hans eru skoðuð sérstaklega, þar á meðal kirkjukantötur, Magnificat, Jóhannesarpassían og messan í h-moll. Einnig verður fjallað um Bach-endurreisnina á 19. og 20. öld. Aðgöngumiði að barokktónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem Hamrahlíðarkórinn ásamt breskum einsöngvurum flytur meðal annars Magnificat Bachs, er innifalinn í námskeiðsgjaldi. Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og kennari við Listaháskóla Íslands, er leiðbeinandi á námskeiðinu sem hefst þriðjudaginn 16. nóvember, verður í þrjú skipti og lýkur svo með tónleikunum 2. desember. Endurmenntun Háskólans veitir nánari upplýsingar en námskeiðsgjaldið er 15.200 krónur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×