Innlent

Ákveðið í samráði við kennara

Kennarar urðu öskureiðir í morgun þegar fréttist að sveitarfélögin ætluðu ekki að greiða laun fyrir nóvember. Í Valhúsaskóla voru börnin send heim til sín aftur. Stefán Jón Hafstein segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin í samráði við kennaraforystuna. Fallið hefur verið frá þessari fyrirætlan í öllum stærstu sveitarfélögunum. Sveitarstjórnarmenn segja að þetta hafi verið ákveðið á föstudag í samráði við forystu kennara sem ekki hafi gert neinar athugasemdir. Þetta hafi einungis verið skuldajöfnun. Kennarar hafi fengið greidd laun út september en hætt vinnu vegna verkfallsins þann tuttugasta. Spurður hvort það hefði ekki sent hlýlegri skilaboð til kennara að greiða launin út strax í morgun segir Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs Reykjavíkur, að það sé verið að senda „hlýleg skilaboð“ hér og nú. Skipt hafi verið um skoðun þegar í ljós kom að þetta hafi ekki verið það sem kennarar áttu von á. Aðspurður hvort viðbrögð kennara hafa komið sér á óvart segir Stefán að svo virðist sem grasrótin hugsi stundum öðruvísi en forystan. Ákveðið var skömmu fyrir hádegi að hverfa frá þessu og greiða kennurum full grunnlaun fyrir nóvember. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, segist túlka þetta sem mistök því það standi skýrt í lögum að það beri að greiða laun fyrsta virka dag í hverjum mánuði. Það kæmi honum ekki á óvart að þessi mistök hefðu áhrif á atkvæðagreiðsluna um miðlunartillögu ríkissáttasemjara því fólk hefði orðið mjög reitt í dag. Vetrarfrí á Seltjarnarnesi áttu að hefjast samkvæmt námskrá í dag en hafði verið blásið af og kennarar samþykkt að vinna það af sér í yfirvinnu. Þeir hættu hins vegar snarlega við þegar tíðindin voru ljós. Í Valhúsaskóla féll því kennsla alveg niður.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×