Innlent

Níu milljarða hækkun

Pétur Blöndal, alþingismaður, hafnar því að ríkið sé stikkfrí í kennaradeilunni og bendir á að ef kennarar samþykkja miðlunartillögu ríkissáttasemjara hækka lífeyrisskuldbindingar ríkisins um níu milljarða. Kennarar eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, ýmist í A-deild eða B-deild en síðarnefndu deildinni var lokað árið 1996 fyrir nýjum félögum. Stór hluti kennara er í B-deildinni en í henni eru einnig núverandi lífeyrisþegar úr þeirra hópi og fyrrverandi kennarar sem farnir eru til annarra starfa . Þeir hækka í lífeyri þegar ráðinn er kennari með meiri menntun í þeirra gamla starf eða þegar dagvinnulaun kennara hækka, til dæmis þegar yfirvinna er færð inn í dagvinnulaunin. "Samningarnir fyrir þremur árum hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkisins um 23 milljarða. Það gera fimm milljónir á hvern starfandi kennara. Miðlunartillagan sem nú er á borðinu hækkar þessar skuldbindingar um aðra níu milljarða," segir Pétur Blöndal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×