Innlent

Veikir ekki reknir á sjó

"Við höfum aldrei rekið mann út á sjó sem er með vottorð upp á veikindi og held við förum ekki að taka upp á því núna," segir Andrés Guðmundsson, útgerðarstjóri hjá Þorbirni-Fiskanesi. Í samningum útgerðarfélagsins við sjómenn er ákvæðu um að "ekkert mæli á móti" að skipverji fari á sjó ef ljóst sé samkvæmt læknisvottorði að hann verði orðinn vinnufær innan örfárra daga. Andrés segir að ákvæðið hafi verið í samningum útgerðarinnar árum saman og mistúlkun að lesa það svo að reka eigi veika menn á sjó. Sambærilegt ákvæði segir hann vera að finna í sjómannalögum. "Þar er þetta í ákvæðum sem snúa að því að gefa háseta rétt á að fara á sjó þó hann sé ekki búin með veikindi sín ef hann sýnir fram á að hann geti það með læknisvottorði." Andrés segir ákvæðið, sem stjórn Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur gagnrýndi harðlega í vikunni, sé bakatil í samningum útgerðarinnar við sjómenn og haft þar meira til upplýsingar um rétt manna í tengslum við veikindi. "Hingað til hefur ekki talist slæmt að upplýsa menn um réttindi þeirra," bætir hann við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×