Innlent

Bensínverð að sliga heimilin

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hyggst gera kröfu til stjórnvalda um að gripið verði til tímabundinna aðgerða til að draga úr sveiflum á bensínverði, sem skelli á landsmönnum með miklum þunga. "Það er ljóst að þessi mikla hækkun á bensínverði er að sliga heimilin í landinu," sagði Runólfur og benti á að hækkunin hefði verið ríflega 16 prósent á tæpum tveimur síðustu árum. Hann sagði að vissulega væri mikil verðhækkun á eldsneyti að ganga yfir heiminn. Annars vegar stafaði það af þekktum óróa í olíuframleiðsluríkjunum. Hins vegar væri iðnvæðing þróunarríkjanna, sem hefði í för með sér stóraukna eftirspurn eftir eldsneyti og spákaupmennsku samhliða því. En ríkissjóður væri að njóta hækkaðs virðisaukaskatts samfara bensínhækkunum. Gera mætti ráð fyrir að skatttekjur hans af bensíni einu væri ríflega 500 milljónir í tekjuauka, miðað við meðalverð á síðasta ári. Hins vegar hefði aukin samkeppni í eldsneytissölu heldur haldið aftur af hækkun álagningar. Um tíma hefði tilhneigingar gætt hjá oliufélögunum að hækka álagningu umfram meðalálagningu. "Eftir sem áður er lítraverðið gríðarlega hátt," sagði Runólfur. "Þetta er farið að telja í tugum þúsunda fyrir hverja meðalfjölskyldu. menn sjá ekki teikn á lofti um að það séu einhverjar róttækar, viðvarandi verðbreytingar í loftinu niður á við." Spurður um afstöðu FÍB til skattheimtu stjórnvalda af bensínverði benti Runólfur á að fyrri Persaflóaátökunum hefði tímabundið verið lækkað vörugjald af bensíni hér á landi. Það hefði endurtekið sig í kringum "rauðu strikin" fyrir tveimur árum, því menn hefðu séð fram á að fyrirliggjandi eldsneytishækkanir gætu jafnvel haft áhrif á kjarasamninga. "Við teljum eðlilegt, að nú verði gripið til tímabundinna aðgerða til að draga úr sveiflunum," sagði Runólfur. "Það liggur fyrir að eftir sem áður er ríkið að njóta góðs af þessari þróun í formi hækkaðs virðisaukaskatts."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×